UM Okkur

Um Lauf Design

Ég ákvað að stofna Lauf Design árið 2021 eftir að hafa smíðað forláta hliðarborð fyrir ólétta konu mína til að auðvelda henni lífið á meðgöngunni. Úr varð hliðarborðið ‘Lauf’. Það sem tók svo við var óvænt uppspretta ýmissa hugmynda um húsgögn sem ég gæti smíðað í framtíðinni með það að leiðarljósi að nýta þá óendanlegu uppsprettu forma og listar sem finnast í íslenskri náttúru. Ég hef alltaf heillast af náttúru landsins og hef í gegnum tíðina hugsað hvernig hægt væri að tengja einstaka þætti náttúrunnar við fallega muni sem myndu sóma sér vel inn á heimilum fólks. Oft er það hægara sagt en gert aðlaga hrjúfa fegurð landsins að húsgögnum en önnur tilraun mín varð til þess að þríeykið ‘Stuðlaberg’ varð til. Í raun varð ‘Stuðlaberg’ til í fjölskylduferð í Reynisfjöru þar sem tignarlegur stuðlabergsdrangi trónir yfir fjörunni og setur einstakan svip á svæðið. Það má segja að flest þau húsgögn sem ég smíða séu afleiðing ferða minna um landið og oftast tengjast þau einstökum minningum um fallegar ferðasögur.

Þar sem ég hef alltaf heillast af smíði, og þá húsgagnasmíði í seinni tíð ákvað ég á endanum að stofna Lauf Design, nefnt í höfuðið á dóttur minni Laufeyju. Það var gert til þess að minna mig sífellt á hvers vegna ég smíða fallega og endingargóða hluti sem fjölskyldan mín myndi njóta með mér um ókomna tíð.

Árið 2019 kláraði húsasmíði frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og í framhaldi af því byggingariðnfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2023 en varð þá húsasmíðameistari samhliða því.

Um húsgögnin okkar

Húsgögnin okkar eru handsmíðuð á verkstæði okkar í Reykjavík. Ekki er notast við verksmiðjuferla sem glæðir húsgögnin lífi og tryggir að engin tvö verk eru alveg eins. Hvert húsgagn hefur einstaka þætti og persónulegt handbragð og er því ekki lýtalaust eins og fjöldaframleidd húsgögn. Þá er einnig hægt að koma með sérstakar óskir um stærðir og viðartegundir til að hver og einn viðskiptavinur geti tekið þátt í hönnun húsgagnsins sem gerir það einstaka eign hvers og eins.

Notast er við innfluttan harðvið sem er þurrkaður áður en smíði hefst. Allt járnverk er pólýhúðað sem gefur endingargóða áferð og tryggir að rispur og skemmdir haldist í lágmarki. Að endingu eru öll húsgögn okkar húðuð með Rubio Monocoat sem þykir ein sterkasta og endingarbesta viðarvörn sem fyrirfinnst í dag.

Heyrðu í okkur

Sendu skilaboð ef þú þarft upplýsingar um verð eða þjónustu.

Hafa samband